Skip to the content

Annata kaupir breskt hugbúnaðarfyrirtæki

13. júní 2017

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Annata hefur gengið frá kaupum á öllum hlutabréfum í breska hugbúnaðarfyrirtækinu IBRL Ltd. Markmiðið með kaupunum er að styrkja stöðu Annata í Bretlandi og nýta þekkingu starfsmanna IBRL til enn frekari sóknar frá skrifstofum félagsins í Manchester og Portsmouth. Starfsmenn sameinaðs félags verða 170 talsins á 15 skrifstofum í 12 löndum, og sinna þeir viðskiptavinum félagsins sem er að finna í yfir 50 löndum víðsvegar um heiminn.

Annata og IBRL munu á næstu mánuðum sameina starfsemi sína undir nafni Annata og verður skrifstofa Annata í Bretlandi sameinuð skrifstofu IBRL í Portsmouth. Starfsmenn sameinaðs félags í Bretlandi verða um 35, en auk þess mun fyrirtækið hafa fjölda verktaka á sínum snærum.

Fjárfestingin er liður í uppbyggingu Annata sem alþjóðlegs hugbúnaðar- og ráðgjafarfyrirtækis. Eigendur og stjórnendur félagsins hyggja á frekari landvinninga á komandi misserum og stefnt er að því að fjöldi starfsmanna nálgist 200 í árslok. Rekstur félagsins hefur verið jákvæður og stöðugur frá stofnun árið 2001 en með aukinni áherslu á þróun viðskiptahugbúnaðar og útflutning sem hófst árið 2005 hefur vaxtarhraðinn aukist.

Sigurður Hilmarsson, forstjóri Annata: „Erlend starfsemi Annata byggir á þróun og sölu viðskiptahugbúnaðar fyrir framleiðendur bíla og vinnuvéla og fyrirtækja sem sinna dreifingar-, sölu- og þjónustustarfsemi í sama iðnaði. Yfir 70% tekna Annata eiga uppruna sinn erlendis og mun það hlutfall hækka á komandi árum. Vöxtur félagsins á milli áranna 2015 og 2016 var um 40% og stefnt er að um 50% vexti í ár. Verkefnastaða er góð hér heima og erlendis og útlit gott á flestum mörkuðum. Í alþjóðlegu samhengi hefur hækkun kostnaðar hérlendis gert að verkum að aukin áhersla hefur verið lögð á uppbygginu erlendis og eru kaupin í Bretlandi gott dæmi um það“.